Foreldri les úr fundinni bók

Foreldri les úr fundinni bók

Í tilefni bókamessu var þeim foreldrum sem vildu boðið að koma í skólann og lesa fyrir bekkjarsystkin barna sinna einhverja bók sem hefði e.t.v. sérstaka þýðingu fyrir viðkomandi. Þetta tækifæri greip hún Ólöf Inga Birgisdóttir, móðir Birgittu í 1. bekk. Hún kom í nestistíma í morgun og las fyrir hluta bekkjarins söguna um Pönnukökukónginn, en eintak bókarinnar sem söguna geymir á svo sannarlega sína eigin sérstöku sögu.

Sú er þannig að Birgir, faðir Ólafar, átti bókina sem barn fyrir u.þ.b. sextíu árum en varð svo viðskila við hana. Fyrir nokkru er svo hringt frá nytjamarkaðnum Búkollu og tilkynnt að þar sé nú bókin, enda merkt eigandanum, og veit enginn hvernig hún rataði þangað. Því var það svo að krakkarnir í 1. bekk fengu í morgun að heyra sögu úr bók með sögu.

Önnur saga og ekki síður skemmtileg er að Halldóra Garðarsdóttir, ein af kennurunum í 1. bekk og fv. deildarstjóri Sérdeildar, kenndi einmitt Ólöfu, móður Birgittu, þegar hún var einmitt í sex ára bekk. Já, hér eru sko sögur á hverju horni og enda vel.