PISA könnun lögð fyrir nemendur í 10. bekk

PISA könnun lögð fyrir nemendur í 10. bekk

PISA könnunin er þessa dagana lögð fyrir 10. bekkjarnemendur um land allt. Tíundabekkingar Brekkó taka þrjá daga í könnunina og byrjaði fyrsti hópurinn í morgun. Könnunin er lögð fyrir þriðja hvert ár og er hún nú á rafrænu formi í fyrsta skipti.

PISA könnunin er umfangsmikil alþjóðleg langtíma rannsókn á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði, stærðfræði og þrautalausn. Sá aldur er valinn vegna þess að í flestum löndum markar hann lok almennrar skólagöngu. Rannsóknin er á vegum OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar), en alls taka 32 þjóðir þátt í rannsókninni. Námsmatsstofnun sér um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi.

Færni á hverju og einu sviði, þ.e. í stærðfræði, lesskilningi og náttúrufræði, er skilgreind sem sú færni sem einstaklingurinn þarf á því sviði til að takast á við framtíðina, leysa verkefni sem daglegt líf krefst af honum og nýta þekkingu við raunverulegar aðstæður.

PISA könnunin er lögð fyrir á þriggja ára fresti með mismunandi áherslum í hvert sinn. Það svið sem áhersla er lögð á tekur 2/3 af próftímanum en hin sviðin skipta á milli sín 1/3 próftímans. Fyrsta könnunin, þar sem áhersla var lögð á lestur, fór fram vorið 2000. Árið 2003 var aðaláherslan lögð á stærðfræði og árið 2006 á náttúrufræði. Þannig fæst ekki aðeins samanburður milli landa heldur einnig milli tímabila, nokkuð sem ekki hefur verið gert áður í svo yfirgripsmikilli rannsókn.

Tveggja klukkustunda langt skriflegt próf er lagt fyrir hvern nemanda og fer fyrirlögn fram í öllum skólum. Prófspurningarnar eru blanda af krossaspurningum og opnum spurningum. Nemendur svara auk þess 20-30 mínútna löngum spurningalista þar sem aflað er ýmissa grunnupplýsinga um þá sjálfa. Auk þess svara skólastjórar 30 mínútna spurningalista um ýmsa þætti í skólastarfinu.

Markmið rannsóknarinnar er að vera stefnumótandi fyrir menntakerfi framtíðarinnar. Vonast er til að niðurstöður gefi m.a. mynd af kunnáttu og getu nemenda í ólíkum löndum við lok skyldunáms og veiti þannig grundvöll fyrir alþjóðlegan samanburð og samræðu milli landa um ólík menntakerfi og stöðu nemenda í ólíku menningar- og menntunarumhverfi.

> Lesa meira um PISA

[ STÆKKA MYND ]