Skóla slitið með skrúðgöngu, söng og spileríi

Skóla slitið með skrúðgöngu, söng og spileríi

Við slitum skóla í dag hér í Brekkubæ og kvöddum nemendur 10. bekkjar. En fyrst gengum stuttan hring um nágrenni skólans undir dynjandi bumbuslætti þannig að við lá að ský greiddust frá sól.

Að skrúðgöngu lokinni héldu allir til íþróttahúss þar sem slegið var saman vormorgunstund og skólaslitum. Þar sungu nemendur 2. bekkjar um vorvindana glöðu, eftirlitsnemendur Umhverfisteymis fengu viðurkenningu fyrir sín góðu störf, kór unglingadeildar söng og veittar voru viðurkenningar til nemenda á yngsta- og miðstigi fyrir árangur í námi, ástundun og góð samskipti við skólafélagana.

Hljómsveitin Appolo spilaði líka eitt frumsamið lag við fögnuð áheyrenda og Sigurjóni tæknimanni voru þökkuð góð störf. Ekki gleymdum við samsöngnum og meðal þeirra laga sem sungin voru var að sjálfsögðu skólasöngurinn okkar sem hann Ingi Steinar, fyrrverandi skólastjóri, setti saman um árið.

Íþróttakennararnir Sigga og Binni veittu Skólahreystiliði Brekkó viðurkenningu fyrir góða ástundun við æfingar og árangur í keppninni. Annars átti útskriftarárgangurinn sviðið að þessu sinni og nýtti það vel til söngs, dans og kveðjuræðu til kennara og starfsmanna skólans.

Að öllu þessu loknu héldu nemendur til stofa sinna, fengu vitnisburð afhentan, kvöddu kennara og félaga og héldu út í sumarfríið.

Starfsfólk Brekkó heldur ögn áfram, en biður öllum góðs sumarfrís og hlakkar til að sjá alla aftur sólbakaða og ferska í sumarlok.

> Sjá myndir frá skólaslitum

[ STÆKKA MYND ]