Nokkur orð um Byrjendalæsi í Brekkubæjarskóla

Nokkur orð um Byrjendalæsi í Brekkubæjarskóla

Mikil umræða hefur verið um kennsluaðferðina Byrjendalæsi undanfarnar vikur. Þessi kennsluaðferð var tekin upp í Brekkubæjarskóla vegna þess að hún var talin til þess fallin að mæta ólíkum þörfum nemenda, hún er fjölbreytt, eflir skapandi hugsun og nemendur eru virkari þátttakendur í eigin námi. Með Byrjendalæsinu fá nemendur strax tilfinningu fyrir texta sem heild en ekki sem samhengislausum bókstöfum. Byrjendalæsið styður við grunnþætti nýrrar aðalnámskrár og lykilhæfnina sem lögð er áhersla á í viðmiðum um námsmat í grunnskólum. Annar kostur sem við sáum við þessa kennsluaðferð er sá að í kennaranáminu er afar lítil eða jafnvel engin kennsla í því að kenna lestur sem er þó lykillinn að öllu námi.

Innleiðingarferlið tekur tvö ár í hverjum skóla, leiðtogarnir fá stuðning frá Háskólanum á Akureyri til að styðja við kennara í skólanum og allir kennarar fara á byrjunar- og framhaldsnámskeið fyrstu tvö árin. Við teljum þrátt fyrir umfjöllun að við séum að koma betur til móts við nemendur í lestrarnámi. Kennarar sem kenna eftir aðferðum Byrjendalæsis upplifa meiri gleði í lestrarnáminu hjá nemendum og finnst sjálfum skemmtilegra að kenna eftir þessari aðferð. Við teljum einnig að kennsluaðferðir Byrjendalæsis henti ungum börnum vel þar sem áherslan er á athafnamiðað nám.

Byrjendalæsinu fylgja lestrarpróf þar sem árangur nemenda Brekkubæjarskóla er borinn saman við árangur annarra skóla í Byrjendalæsi. Einnig notum við Leið til læsis sem eru stöðluð lestrarpróf. Við höfum farið yfir niðurstöður þessara prófa hér og reynt að mæta þeim nemendum betur sem ná ekki lágmarksviðmiðum. Það sem við getum gert betur og ætlum að breyta hjá okkur er að kalla á foreldra til að fara yfir niðurstöðurnar og setja upp áætlun um hvernig við getum í sameiningu stutt nemandann í lestrarnáminu.

Meðfylgjandi eru línurit yfir árangur nemenda Brekkubæjarskóla í íslensku og stærðfræði í samræmdum prófum frá árinu 2006. Eins og sjá má hefur árangur í íslensku verið örlítið upp á við í 7. bekk, en það eru einungis tveir árgangar sem hafa verið í Byrjendalæsi frá upphafi sem tekið hafa próf í 7. bekk. Í 4. bekk stóðum við í stað til að byrja með, tókum dýfu niður en náðum okkur aftur upp í fyrra. Árangur nemenda í stærðfræði á samræmdum prófum er svipaður og í íslenskunni.

Byrjendalæsi---tölur