Hálft þúsund skokkar um Skagann

Hálft þúsund skokkar um Skagann

Það er ekki á hverjum degi sem rúmlega hálft þúsund barna, unglinga og fullorðinna skokkar um Skagann. En þannig var dagurinn í dag þegar Brekkósprettur var hlaupinn í 6. skipti. Hefð er komin á það að veðurguðirnir brosi til okkar á þessum degi og í þetta skiptið lögðu þeir líka til dass af vindi til þess að herða okkur á leiðinni upp Vesturgötuna og svo létta með okkur á hlaupunum niður Kalmansbrautina.

Þessi feðgin eru ekki of sein í skólann heldur að hlaupa saman Brekkósprett.

Þessi feðgin eru ekki of sein í skólann heldur að hlaupa saman Brekkósprett.

Í Brekkóspretti hleypur hver með sínu sniði og á sínum hraða, enda mikið lagt upp úr því heilsueflandi grunnskóla eins og okkar að allir taki þátt. Sumir hlaupa og gang á víxl, aðrir taka sprettinn bókstaflega og enn aðrir rölta og spjalla einn til tvo hringi (1 hringur = 2,2 km). Nemendur efri bekkjanna er margir kappsamir fyrir hönd síns bekkjar og árgangs og leggja hart að sér að hlaupa fjóra, fimm og jafnvel sex hringi. Í yngri bekkjunum er ekki óalgengt að krakkarnir fari tvo til þrjá hringi og er það bara nokkuð gott.

Upphitun fyrir átök eins og Brekkósprett er mikilvæg og hér sjást fótboltakappar og aðrir kappar hrista skanka fyrir sprettinn.

Upphitun fyrir átök eins og Brekkósprett er mikilvæg og hér sjást fótboltakappar og aðrir kappar hrista skanka fyrir sprettinn.

Síðustu árin höfum við boðið foreldrum og öðrum aðstandendum nemenda að hlaupa með okkur og í þetta sinn varð enginn brestur á þeirri þátttöku. Að auki hlupu í dag þrír fótboltamenn úr meistaraflokki ÍA karla og skv. áreiðanlegum heimildum tókst þeim að klára nokkra hringi.

> Sjá myndir frá Brekkóspretti
> Skoða hlaupaleiðina