Forsetaheimsókn

Forsetaheimsókn

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, heimsótti Brekkubæjarskóla í morgun í tilefni Forvarnardagsins, sem er í dag. Ólafur átti stefnumót við 9. bekk á sal skólans af þessu tilefni, en hann er verndari verkefnisins og virkur þátttakandi í kynningu þess.

Þegar forsetinn mætti á slaginu níu beið hans þéttskipuð móttökunefnd allra nemenda skólans sem raðað höfðu sér í enfalda og stundum tvöfalda röð frá Vesturgötunni upp meðfram skólanum alla leið að aðal- og elsta inngangi skólans hinumegin.

Eins og forsetans er vani heilsaði hann öllum sem á móti honum tóku og handsalaði sig þannig áfram móttökugöngin sem nemendur mynduðu alla leið inn í skólann.

Þegar inn var komið – og merkilegt nokk; handabönd við rúmlega fjögur hundruð nemendur og starfsmenn tók ekki nema 15-20 mínútur – hélt Ólafur niður í sal þar sem 9. bekkingar biðu hans og unglingakór skólans.

Þar hlýddi forsetinn á tvö lög en horfði svo á stutta forvarnarkvikmynd með nemendunum. Að því loknu hélt Ólafur stutta tölu um efni þess, sem er mikilvægi ástundunar íþrótta, tónlistarnáms og annarrar uppbyggjandi iðkunar líkama og sálar og ítrekaði þann boðskap að ungt fólk flanaði ekki að neyslu áfengis heldur geymdi það alveg þangað til líkamlegur og andlegur þroski leyfði, þetta um tvítugsaldurinn. Svo væri líka bara alveg ágætt að sleppa þessu alveg.

Forsetinn bauð svo upp á almennt spjall og spurðu unglingarnir hann nokkurra spurninga um hans hagi og t.d. hvaða íþróttir hann stundaði sem ungur maður. Eitt svarið vakti þó sennilega mesta athygli, en það var að í fótbolta héldi hann með ÍA og rakti það til sinna yngri ára sem Vestfirðings þegar Skagamenn voru eina landsbyggðarliðið sem keppti í efstu deild.

Í lokin fengu unglingarnir svo hópmynd með forsetanum sem brá sér svo upp á kaffistofu starfsmanna í eins og einn tebolla og létt spjall áður en hann dreif sig í næstu heimsókn. Við þökkum Ólafi kærlega fyrir innlitið í dag.

> Sjá fleiri myndir frá forsetaheimsókn
> Sjá upptöku frá söng unglingakórsins fyrir forsetann
> Sjá vef Forvarnardagsins