7. S geymir getspökustu bókaormana

7. S geymir getspökustu bókaormana

Úrslitin í spurningakeppninni Bókaormar Brekkubæjarskóla fór fram á sal skólans í morgun og er þetta í þriðja sinn sem keppnin er haldin. Þetta er spurningakeppni úr sautján bókum sem nemendur í 4.–7. bekk lesa og er um útsláttarkeppni að ræða.

Að þessu sinni var það lið 4. bekkjar sem keppti á móti liði 7.S. Þetta er í fyrsta sinn sem 4. bekkur kemst í úrslit en á leiðinni þangað tókst liðinu að sigra bæði lið úr 7. bekk og 5. bekk og náði 50 stigum í einni viðureigninni. Í sjálfum úrslitunum mætti liðið ofjörlum sínum í 7.S – sigurliðinu frá í fyrra – sem náðu 64 stigum, sem er það mesta sem lið hefur fengið í þessari keppni.

IMG_3249

Lið 4. bekkjar skipuðu þau Haukur L. Sigurðsson, Íris P. Jónsdóttir og Margrét B. Pálmadóttir. Í liði 7.S voru Arnheiður A. Hallvarðsdóttir, Salka Brynjarsdóttir og Þóra K. Ríkharðsdóttir. Auk þessa sáu þeir Bjartur Ólafur Eyþórsson og Benóní Jónasson um að leika orð sem tengdust bókunum sem spurt var úr. Að baki þessum krökkum stóðu svo allir bekkarfélagarnir því leita má til þeirra um aðstoð í flestum spurningum keppninnar.

Markmiðið með keppninni er að hvetja nemendur til þess að lesa og að tileinka sér það sem þeir lesa. Nú hafa sveitarfélög um land allt undirritað samning við Mentamálaráðuneytið um að stuðla að eflingu læsis meðal barna og unglinga. Ekki er meiningin að skólarnir komi einir að því viðfangsefni heldur eru foreldrar og þeir sem að börnunum standa minntir á mikilvægi síns hlutverks.

Kennarar, foreldrar, ömmur og afar; lesum fyrir börnin og látum þau lesa fyrir okkur. Upplifum með þeim ævintýrið sem felst í því að ná tökum á lestrinum. Upplifum með þeim ævintýrið sem felst í góðri bók.

Hallbera Jóhannesdóttir
Bókasafni Brekkubæjarskóla
og spurningastjóri

> Skoða myndir frá spurningakeppni

[ STÆKKA MYND ]