Grænfáninn í 5. skiptið

Grænfáninn í 5. skiptið

Brekkubæjarskóli er Grænfánaskóli og starfar í anda sjálfbærrar þróunar. Annað hvert ár er sótt um endurnýjun á Grænfánanum og Landvernd send skýrsla um hvernig starfið hefur gengið og fulltrúar þaðan heimsækja skólann og taka út starfið.

Í haust var sótt um endurnýjun leyfis til að flagga þeim græna og við getum stolt sagt frá því að við stóðumst úttektina og flöggum því Grænfánanum í fimmta skipti, en fánann fengum við afhendan á Jólamorgunstund.

Næstu tvö skólaárin er stefnt að því að vinna með ný þemu, en þau eru:

Samgöngur

  • Hvernig komum við í skólann? Komum við gangandi, hjólandi, á bíl eða með strætó?
  • Hvað er best fyrir umhverfið? En heilsuna?
  • Hvernig er staðan hér á Akranesi? Er gott aðgengi fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur?
  • Hver er kostnaðurinn við að reka bíl á móti því að hjóla og/eða ganga.

Neysla

  • Hverjar eru þarfir okkar? Þurfum við allan þennan mat, föt, hluti? Er munur á okkar neyslu og þeirra sem búa í öðrum löndum eða heimsálfum?
  • Getum við minnkað neyslu okkar? Hvað felur það í sér? Minnka lífsgæðin um leið og við minnkum neysluna?
  • Getum við minnkað matarsóun?
  • Hvar í heiminum eru vörurnar framleiddar? Er umhverfisvænna að kaupa vörur sem eru framleiddar á Íslandi? Af hverju?
  • Hvað verður um það sem við erum hætt að nota?

Við munum að sjálfsögðu halda áfram að vinna gott starf við flokkun, endurnýtingu, útikennslu og fleira sem unnið hefur verið með í gegnum árin.

> Lestu meira um umhverfisstefnu skólans

Grænfánanum flaggað í fimmta sinn eftir afhendingu á Jólamorgunstund 15. desember 2015.

Grænfánanum flaggað í fimmta sinn eftir afhendingu á Jólamorgunstund 15. desember 2015.