3. bekkingar læra um Barnasáttmála og ólíkar aðstæður barna

3. bekkingar læra um Barnasáttmála og ólíkar aðstæður barna

Undanfarið hafa nemendur í 3. BS (árg. 07) verið að kynna sér Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og velt m.a. fyrir sér réttindum og forréttindum barna. Einnig hafa þeir rætt um ólíkar aðstæður barna í heiminum og horft á myndband frá fátækrahverfi í Nairobi í Keníu.

Í kjölfarið fóru nemendurnir að velta því fyrir sér hvort eitthvað væri sem þeir gætu gert sem hópur og látið gott af sér leiða. Úr varð að halda bingó fyrir fjölskyldur nemenda. Bingóspjöld voru seld og ákveðið að gefa ágóðann til ABC-barnahjálpar. Í framhaldi af bingóinu rak á fjörur nemendanna annað áhugavert verkefni í tengslum við þetta námsefni.

Þannig er að afi eins nemanda í bekknum vinnur í Nairobi. Hann aðstoðar nú tvær systur, 5 og 7 ára, og 3. bekkingunum fannst tilvalið að hjálpa til. Hafa þeir nú safnað fötum og skóm sem afinn fer svo með til Keníu og færir systrunum. Í gær fékk bekkurinn svo kærkomna heimsókn þegar fulltrúi ABC-barnahjálpar, Birgir Snæfeld Björnsson, kom og tók við peningunum sem söfnuðust í bingóinu, einum 30.000 krónum.

Nemendur afhenda fulltrúa ABC-barnahjálpar peningana sem söfnuðust í bingói bekkjarins.

Nemendur afhenda fulltrúa ABC-barnahjálpar peningana sem söfnuðust í bingói bekkjarins.