Berlín 2012 – skólaheimsókn

Dagana 16. – 21. ágúst 2012 dvaldi lunginn af starfsmönnum Brekkubæjarskóla menningarborgina Berlín og kynnti sér skólastarf þar. Alls voru tólf skólar heimsóttir – hver öðrum ólíkari – en starfsmannahópnum var skipt niður eftir áhuga hvers og eins þannig að hver starfsmaður heimsótti fjóra skóla.

Móttökur starfsmanna og skólastjórnenda skólanna voru afar góðar og fengu starfsmenn Brekkubæjarskóla oft ítarlega kynningu á skólanum sem heimsóttur var hverju sinni, en ekki þótti þeim síst til þess koma að fá að fylgjast með kennslustundum og spjalla við nemendur og kennara. Var margt að sjá í þessum skólum og heyra sem nýtast má í skólastarfinu hér heima.

Hér fyrir neðan má lesa stuttar skýrslur um heimsóknirnar í skólana.

Hópurinn sem heimsótti Evrópuskólann Quentin Blake Grundschule. Það vakti athygli og ánægju hópsins að það voru nemendur, sk. taxar, sem leiðsögðu hópnum um skólann.

Hópurinn sem heimsótti Evrópuskólann Quentin Blake Grundschule. Það vakti athygli og ánægju hópsins að það voru nemendur, sk. taxar, sem leiðsögðu hópnum um skólann.

Sachenwald Grundschule

17. ágúst 2012

Stutt lýsing á skólanum

Almennur grunnskóli frá 1. – 6. bekk (ca. 6 – 12 ára). 50 % nemenda er með innflytjendabakgrunn. Skólinn leggur áherslu á íþróttakennslu. 4 – 6 íþróttatímar á viku, fer eftir aldri. Leggur upp með að íþróttir séu fyrir alla, en ekki að allir verði einhverjir afburða íþróttamenn. Boðið upp á skóladagvist eftir kennslu (kl. 13 – 14.30). Þar geta nemendur valið sér ýmsar íþróttir til að stunda. Lagt upp úr hollu matarræði. Sundkennsla í 3. bekk.

Hvað var áhugavert

Skólalóðin stór og flott leiktæki. Skólabúnaður var sæmilegur. Fjórar smarttölvur í skólanum. Skólahúsgögnin í stofum tóku ekki mikið pláss. Afslappað andrúmsloft. Blandaður skóli. Mikið lagt upp úr hópavinnu. Flott kerfi í sambandi við markmið hverrar kennslustundar (Entwicklungspädagogischen Unterricht (ETEP)). Íþróttakennslan var frekar hæg, virkni mætti vera meiri að okkar mati. Ruslatínsla á skólalóðinni. Flokkunarkerfi í hverri stofu.

Það sem við gætum nýtt í okkar kennslu

Setja fram skýr (sýnileg) og fá markmið í hverri kennslustund. Erum búin að fá boð frá einum kennaranum að kynna betur fyrir okkur þetta markmiðssetningakerfi, þ.e. ETEP.

Arno Fuchs Schule

17. ágúst 2012

Stutt lýsing á skólanum

Sérskóli fyrir þroskahefta og hreyfihamlaða nemendur. 120 nemendur í skólanum á aldrinum 6 – 18 ára. 7-8 nemendur eru í hverjum bekk með einn kennara og tvo aðstoðamenn. 80% nemenda hefur innflytjendabakgrunn og mjög hátt hlutfall foreldra þar að auki atvinnulausir. Nota að hluta til Montessori aðferðina.
Hvað var áhugavert

Allt áhugavert, æðislegur skóli og frábær skólastjóri sem sýndi okkur skólann. Vel skipulagt og markvert starf. Nemendur settir í fyrsta sæti. Heimilislegar skólastofur og notaleg skólalóð, sem nemendur hugsuðu um sjálfir. Fara út fyrir kennslustofuna á söfn o.fl. Frábær tónlistakennari, mikið unnið með tónlist, dans og takt. Sundþerapía, sundlaug á staðnum. Í elstu bekkjunum mikil áhersla á verklegt, þ.e. handmennt, smíði og málm (hjólavinna). Aðeins 5% nemenda er læs eða skrifandi.

Lagt upp með að nemendur taki ákvarðanir sjálfir, þeir verði sjálfstæðari og læri að bjarga sér, t.d. taka strætó eða nota síma. Starfsnám í 10. bekk (vinna í 3 vikur úti á vinnumarkaðnum). Skólinn tók þátt í Berlínarmaraþoninu.

Það sem við gætum nýtt í okkar kennslu

Fjölbreytt viðfangsefni. Val nemenda (Montessori): ekki búið að ákveða að þessi geti ekki eitthvað eða að eitthvað sé ekki hægt. Bekkjarblöndun: minna fatlaðir með mikið fötluðum. Námsefni sýnilegt og myndrænt. Skemmtileg uppsetning á verkefnum, eins og snertilistaverk.

Wetzlar Grundschule

20. ágúst 2012

Stutt lýsing á skólanum

Almennur grunnskóli með 1. – 6. bekk. Nemendur 371. Blandaðir bekkir í 1. – 3. bekk, þ.e. ekki árgangaskipting. Leggur mikla áherslu á félagsfærni/lífsleikni. Jafningafræðsla. Nemendur læra á hljóðfæri frá 2. bekk. Fjölbreyttir kennsluhættir. Skólalóðin er 10.000 fm. Tveir kennarar í hverjum bekk.

Hvað var áhugavert

Fjölbreytni. Vel útbúnar skólastofur. Í tungumálakennslu er ekki töluð þýska. Skólinn vel búinn kennslugögnum. Sjónrænar leiðbeiningar. Sandur á opnum bakka í kennslustofu til að móta stafina. Útikennslustofa og skólalóðin var æðisleg. Ratleikur fyrir nýja nemendur. Skólapokar (taupokar) í ákveðnum lit eftir aldri til að bera í gögn milli svæða.

Það sem við gætum nýtt í okkar kennslu

Ákveðinn bekkur með umsjón með útisvæðinu. Aldursblöndun í 1. – 3. bekk þar sem eldri nemendur aðstoða þá yngri. Tími í stundatöflu fyrir félagsfærni.

Gemeinschafsschule

20. ágúst 2012

Stutt lýsing á skólanum

Almennur grunnskóli frá 1. – 6. bekk, 766 nemendur. Fjölmenningarskóli, þ.e stór hluti nemenda með innflytjendabakgrunn. Mikið um félagsleg vandamál. Félagsráðgjafar vinna innan skólans. Samkennsla í 1.-3. bekk og í 4.-6. bekk. Bekkirnir heita eftir dýrum. Allir nemendur eiga kost á að læra á hljóðfæri.

Hvað var áhugavert

Möppur sem nemendur velja sjálfir bestu verkefnin inn í. Lausnarherbergi þar sem nemendur geta leitað aðstoðar hjá félagsráðgjafa. Útisvæðið vel nýtt og kennslustofur vel búnar kennslugögnum (nokkrar stofur með smarttölvur). Unnið með styrkleika nemenda í stað veikleika. Áhugavert að foreldrar geta fengið tungumálakennslu innan skólans.

Það sem við gætum nýtt í okkar kennslu

Lausnarherbergið. Félagsráðgjafa inn í skólann. Skoða hvernig við tölum við nemendur þar sem við reynum að draga fram styrkleika þeirra í stað þess að benda á það sem þau kunna ekki.

Freie Waldorfschule Berlin-Mitte

17. ágúst 2012

Stutt lýsing á skólanum

Einkaskóli, 400 nemendur 6-18 ára. Skólinn er staðsettur í gömlu friðlýstu húsi. Umsjónakennarar fylgja nemendum í 1. – 8. bekk og svo í 9. – 13. bekk. Áherla á listsköpun og handverk. Kindur, kanínur og hænur í garðinum og hundur á föstudögum.

Hvað var áhugavert

Áherla á listsköpun og handverk (læra t.d að búa til alklæðnað fyrir skólagönguna). Nýtnisjónarmið; tækjum og búnaði haldið í lágmarki. Töfluskreytingar sem unnið er út frá. Árstíðartengd vinna. Rússneskukennsla. Engar námsbækur sjáanlegar.

Það sem við gætum nýtt í okkar kennslu

Meiri þátttaka foreldra í skólastarfinu. Handverkskennsla. Hljóðeinagrun í kennslustofum. Áhersla á listsköpun og handverk.

Helene Haeusler Schule

17. ágúst 2012

Stutt lýsing á skólanum

Sérskóli fyrir fötluð börn frá 6-18 ára. Síðustu tvö árin er starfsbraut. Skólinn er mjög rúmgóður og vel hannaður fyrir þá starfsemi sem er þar. Í hverjum bekk eru 6-8 nemendur og 3 starfsmenn. Aðalkennari með mikla sérmenntun, annar kennari ekki með jafn mikla sérmenntun og aðstoðarmaður með uppeldismenntun.

Hvað var áhugavert

Hvað rýmið var bjart og vel nýtt. Öll þjónusta í skólanum þannig að foreldrar þurfa ekki að fara annað með börnin í þjálfun. Sundlaug með hæðarstillanlegum botni. Útisvæðið þjónar öllum. Nemendur með talgervla.

Það sem við gætum nýtt í okkar kennslu

Láta nemendur taka á móti gestum og kynna starfið. Nemendur taki þátt í t.d viðhaldi á húsnæði og almennt þeim störfum sem vinna þarf í skólaumhverfinu. Ýmsar útfærslur af tækjum til tjáningar. Hafa bekkjarfulltrúa og funda með stjórnendum, allur aldur. Hafa fleiri blóm í umhverfinu.

Charlotte Salomon Grundschule

20. ágúst 2012

Stutt lýsing á skólanum

Almennur grunnskóli frá 1. – 6. bekk (ca. 6 – 12 ára ), 440 nemendur. Samkennsla í 1.-3. bekk og 4.-6. bekk. Blöndun í bekkjum; fatlaðir og ófatlaðir, fatlaðir nemendur með fylgd. Sundkennsla í 3. bekk í sundlaug fjarri skóla. Spennt fyrir Comenius samstarfi í tónlist. Lítið bókasafn.

Hvað var áhugavert

Krítartöflur hægt að hreyfa upp og niður. Góður aðbúnaður. Góður agi. Teppi inni í einni stofu sem er hljóðeinangrandi vegna þess að 3 nemendur eru heyrnarskertir. Allir nemendur inni á skónum. Skólabjallan ljúf og nota einnig fleiri bjöllur til að fá hljóð. Gefin góður tími til að fara yfir skipulag dagsins. Hreyfing notuð sem uppbrot í kennslunni. Kennarar meðvitaðir um raddbeytingu.

Það sem við gætum nýtt í okkar kennslu

Bjöllurnar. Raddbeyting kennara. Gott skipulag. Hreyfing sem uppbrot. Comenius samstarf. Nota það sem er í gangi hverju sinni sem þema, t.d notuðu Ólympíuleikana mikið núna.

Marianne Cohn Schule

20. ágúst 2012
Stutt lýsing á skólanum

Sérskóli fyrir mikið fatlaða einstaklinga, bæði líkamlega og andlega fatlaðir. 91 nemandi frá 7. bekk til 18 – 19 ára. Skólinn stofnaður og byggður 1970, lítið sem ekkert haldið við síðan.

Hvað var áhugavert

Verkstæði þar sem eldri nemendur stunda vinnu sína hálft ár í senn. Þar er líkt eftir raunverulegum aðstæðum til að kenna nemendum á vinnu. Bekkir þar sem einstaklingar með mismunandi fötlun blandast sman til að dreyfa álaginu.

Það sem við gætum nýtt í okkar kennslu

Verkstæðin eru spennandi fyrir börn með fötlun. Undirbýr þau fyrir framtíðina, mikil verkleg vinna og blöndunin í bekkjum.

Wald Grundschule

17. Ágúst 2012

Stutt lýsing á skólanum

Almennur grunnskóli með áherslu á útikennslu og íþróttir, 500 nemendur og um 28-30 í bekk. Skólagarður og íþróttahús.

Hvað var áhugavert

Foreldrar taka virkan þátt og gefa peninga í skólann. Áhugavert var að skoða skólagarðana og útileikföngin sem nemendur bjuggu til sjálfir. Áhugavert að nemendur fara í leikfimi á hverjum degi.

Það sem við gætum nýtt í okkar kennslu

Við getum nýtt okkur vinnu nemenda við að hanna og gera leiktæki á skólalóð. Nemendur gætu skreytt bekki og ruslatunnur. Gera skólalóðina líflegri. Við gætum virkjað foreldra betur vegna tækjakaupa.

Stechlinsee Grundschule

17. ágúst 2012

Stutt lýsing á skólanum

Almennur grunnskóli (1.-6. bekkur), hverfisskóli í ríku hverfi, lítið um innhlytjendur. Blöndun í 1.-3. bekk. Áhersla á tónlist, hljómsveitir (blástur) í 4. -6. bekk. Margt í boði eftir skóla.

Hvað var áhugavert

Tónlistin, tekur mikið pláss í kennslu, kennt í minni hópum. Vel búinn skóli, falleg bygging og umhverfi fallegt. Skólinn er 5 hæðir og ekki lyfta. Margir karlmenn við störf.

Það sem við gætum nýtt í okkar kennslu

Tímalína í myndlistastofu sem sýnir sögu myndlistar, mætti nota í fleiri greinum. Myndlistarútfærslur ýmiskonar. Skóladagvist; mismunandi áherslur. Það sem foreldrar borga fyrir skóladagvist er tekjutengt.
Charles Dickens Schule

17. ágúst 2012

Stutt lýsing á skólanum
– Evrópuskóli, tvískiptur – þýskur og enskur
– Blandaður þýsku- og enskumælandi nemendum og starfsfólki. Þrír kennarar með hvern hóp, enskur, þýskur og superviser.
– Þýsku- og enskumælandi nemendum blandað í bekki, 50/50.
– Kennslustundir fara fram á ensku þegar enskumælandi kennari kennir og á þýsku þegar þýskumælandi kennari kennir.
– Mismunandi hvort nemendur þurfi að tala ensku eða þýsku í list – og verkgreinum, fer eftir hvaða tungumál kennarinn talar, ensku eða þýsku. Þannig læra nemendur fjölbreyttan orðaforða hverrar námsgreinar fyrir utan markvissa ensku- og þýskukennslu.
– Skóladagur frá 8.00-16.00, engin heimavinna vegna langs skóladags. Þau verkefni sem útaf standa eftir að kennslu líkur sér superviser um að nemendur ljúki áður en skóladegi líkur.

Hvað var áhugavert
– Kennsla á tveimur tungumálum.
– Þrír kennarar með hvern hóp, nemendur nota ensku eða þýsku eftir því á hvoru tungumálinu kennslan fer fram. Nemendur mæta t.d. í íþróttir og ef kennarinn er enskumælandi þá fer kennslan fram á ensku og nemendur þurfa að tala við kennarann og sín á milli á ensku.
– Morgunstundir 1x í mánuði, fara fram á ensku.
– 1x í viku social learning.
– Foreldrafélagið styður við skólann til að efla enskukennsluna.
– Skilaboð og reglur skýr, skipulag á veggjum sýnilegt.
– Skólalóðin vel gerð til hreyfingar, náttúrutæki – trjátrumbar, grjót og fleira.
– Foreldrafélagsveggur, skilaboð og upplýsingar til foreldra í anddyri skólans.

Það sem við gætum nýtt í okkar kennslu

– Foreldrafélgasstörf og efla þátttöku foreldra í skólastarfinu. Foreldrafélagsveggur.
– Hvernig eldri nemendur taka þátt, eru málamiðlarar til hjálpar yngri nemendum þegar eitthvað kemur upp á í samskiptum á milli nemenda.
– Kennsla annara tungumála en móðurmáls – hvernig nemendur læra önnur tungumál (ensku) með því að þurfa að nota það í mismunandi námsgreinum fer eftir móðurmáli kennarans.

Quentin Blake Grundschule

20. ágúst 2012

Stutt lýsing á skólanum

Evrópskur ríkisskóli. 1. – 6. bekkur. Enska/þýska móðurmál nemenda. Bæði mál notuð í kennslu. Deild fyrir fatlaðra. Inntökupróf í ensku úr tvítyngdum leikskóla.

Hvað var áhugavert

Leikur notaður sem kennsluaðferð. Smarttafla í hverri stofu. Tvítyngi. Ritunarkennsla var öflug. Útiaðstaða og leiksvæði örvandi, vel skipulagt og gott. Tveir nemendur sem eru merktum vestum leysa úr ágreiningsmálum nemenda í frímínútum. Hjólaleiga – nemendur vinna við hana í frímínútum og skrá út leiktæki. Nemendur virkjaðir vel. Nemendur tóku á móti okkur og fóru með okkur um skólann og í kennslustundir, kallaðir TAXI og merktir sem slíkir.

Það sem við gætum nýtt í okkar kennslu

Láta nemendur taka á móti gestum. Nota leiki mikið í kennslu. Nýting á ódýrum búnaði. Skólavinir sem leysa úr ágreiningi. Efla ritunarkennslu.