Alþjóðlegur dagur læsis

Alþjóðadagur læsis er 8. september. Sameinuðu þjóðirnar gerðu þann dag að alþjóðadegi læsis árið 1965 í því skyni að vekja athygli á mikilvægi læsis fyrir líf og starf. Nánast hvar sem er í heiminum er góð færni í lestri talin vera eitt af því sem síst er hægt að vera án. Þá er ekki bara um það að ræða að afla sér þekkingar heldur einnig að lifa hinu daglega lífi. Við erum alltaf að lesa og þörf okkar á því að geta lesið minnkar ekki með tilkomu tölvunnar.

Lestur er sálinni það sem hreyfing er líkamanum
(Henry David Thoreau (1817-1862).

Þessi orð minna okkur á að sama gildir um færni í lestri, hljóðfæraleik og íþróttum – maður verður að æfa sig. Kennarinn leggur inn stafina og aðferðina við að tengja þá saman, foreldrarnir eru þjálfararnir. Það er mikilvægt að vekja áhuga barna á bóklestri því það eflir málþroska þeirra og fjörgar ímyndaraflið fyrir utan hversu góð afþreying það er.

Kennarar,foreldrar, ömmur og afar, lesum fyrir börnin og látum þau lesa fyrir okkur. Upplifum með þeim ævintýrið sem felst í því að ná tökum á lestrinum. Upplifum með þeim ævintýrið sem felst í góðri bók. Því eins og Þórarinn Eldjárn segir:

Bók í hönd – og þér halda engin bönd
Bók í hönd – og þú berst niður á strönd. 
Bók í hönd – og þú breytist í önd.
Bók í hönd – og beint út í lönd.

– Hallbera Jóhannesdóttir