Lestrarátak Ævars vísindamanns

Ævar

Mikið er rætt og ritað um minnkandi bóklestur barna og unglinga. Ýmislegt er gert til þess að hvetja börnin til þess að lesa meira. Það er með lesturinn eins og t.d íþróttir, tónlistarnám eða annað sem maður vill ná góðum tökum á, MAÐUR VERÐUR AÐ ÆFA SIG. Nemendur ná ekki alltaf að æfi sig nógu mikið í skólanum og því er mikilvægt að þau æfi sig líka heima.

Til þessa að hjálpa okkur að hvetja krakkana áfram hefur Ævar Þór Benediktsson sett í gang Lestrarátak Ævars vísindamanns fyrir 1. – 7. bekk. Ævar Þór er leikari og rithöfundur og hefur síðustu ár búið til mikið af barnaefni sem Ævar vísindamaður, bæði í bókum og sjónvarpi.Átakið hófst formlega 1. október og stendur til 1. febrúar. Lestrarátakið er m.a. unnið með hjálp frá Heimili og skóla, Ibby, RÚV, og Forlaginu.

Nánar um lestrarátakið
Lestrarátakið virkar þannig að fyrir hverjar þrjár bækur sem nemendur í 1. – 7. bekk lesa fylla þau út miða sem þau sækja í gegnum visindamadur.com, en einnig geta börnin nálgast miða á skólasafninu. Foreldri eða kennari kvitta fyrir því að hver bók hafi verið lesin og svo verður miðinn settur í kassa sem staðsettur er á skólasafninu. Í lok átaksins eru miðarnir sendir til Heimilis og skóla.

Því fleiri bækur sem börnin lesa því fleiri miða eiga þau í pottinum. Það skiptir engu máli hvort bókin er löng eða stutt, á íslensku eða öðru máli, teiknimyndasaga, Syrpa eða skáldsaga – bara svo lengi sem börnin lesa. Í lok átaksins verða dregin út fimm nöfn og fá þau í verðlaun að verða að persónum í nýrri ævintýrabók sem Ævar er að skrifa (Bernskubrek Ævars vísindamanns: Risaeðlur í Reykjavík) og kemur hún út með vorinu.

Hallbera Jóhannesdóttir
bókasafni Brekkubæjarskóla