Foreldrarölt

Foreldraröltið hófst að frumkvæði foreldra árið 1995. Nú er ekki mikið um að börn og unglingar séu úti á kvöldin, en draga sig þó saman í smá hópa í Shell sjoppunni á Skagabrautinni. Foreldraröltið snýst því nú orðið meira um að foreldrar hittast og spjalla saman, kynnast foreldrum vina barna sinna, heyra ólík sjónarmið og deila sínum með öðrum foreldrum.

> Skoða foreldraröltslista 2014-15

Það hefur sýnt sig að foreldrarölt kemur í veg fyrir óæskilega hluti og því er þetta mjög mikilvægt forvarnastarf:

  • Ósætti milli einstaklinga og hópa þróast síður yfir í alvarlegt ofbeldi.
  • Hópamyndanir eru minni.
  • Drykkja og vímuefnaneysla er minni þar sem fullorðnir eru nærstaddir.
  • Sala áfengis og annara vímuefna fer síður fram það sem foreldrar fylgjast með.

Af hverju á ég að rölta, mitt barn er ekki úti?

Þó svo að þitt barn sé ekki úti á kvöldin þá getur þú haft áhrif á félagslegt umhverfi þitt og barnsins með því að taka þátt. Við berum öll ábyrgð á okkar nánasta umhverfi, hættum og hvar unglingar geta haft athvarf til hópamyndunnar og neyslu óæskilegra efna.

Foreldraröltið er einnig góður vettvangur fyrir foreldra að kynnast öðrum foreldrum, heyra ólík sjónarmið, kynnast félögum barna sinna og sjá hvað jafnaldrarnir eru að gera.

  • Virðum útivistarreglur
  • Kaupum ekki áfengi handa unglingum
  • Samþykkjum ekki foreldralaus samkvæmi

Foreldrar, sýnum samstöðu og tökum þátt – þetta hefur áhrif!

Skipulag foreldrarölts 2014-15 eftir bekkjum

Röltdagar eru ákveðnir af stjórn foreldrafélagsins og eru foreldrar barna í 7.-10. bekk sem skipta röltinu á milli sín. Foreldrar barna í 7. og 10. bekk rölta saman og foreldrar barna í 8. og 9. bekk saman. Það eru 4-6 saman í hóp frá Brekkubæjarskóla og einnig foreldrar frá Grundaskóla.

Hvert foreldri þarf einungis að rölta einu sinni yfir veturinn, þeir sem eiga tvö eða fleiri börn í þessum bekkjum rölta því einnig bara einu sinni yfir veturinn. Mæting er í Þorpinu kl. 21.45 og er mjög gott að staldra aðeins við þar, hella sér upp á kaffi og spjalla smá stund áður en farið er út. Taska með lykli og möppu er á skrifstofunni í Þorpinu. Að rölti loknu um kl. 23 er fyllt út skýrsla.

> Skoða foreldraröltslista 2014-15