Sérdeild

Sérdeild Brekkubæjarskóla var formlega stofnuð árið 1986. Hún tilheyrir Brekkubæjarskóla á Akranesi og er rekin af Akranesbæ. Tilgangur með stofnun hennar var að gera fötluðum börnum á Akranesi kleift að stunda nám í heimabyggð. Sérdeildin þjónar báðum grunnskólum Akranesbæjar og foreldrar fatlaðra barna hafa valkost um nám í sérdeild eða í almennum bekk fyrir börn sín.

Árlegur starfstími sérdeildar fylgir skóladagatali Brekkubæjarskóla. Nemendur sérdeildar hefja skóladaginn ýmist í sérdeildinni eða í bekknum sínum. Hver nemandi hefur sína stundaskrá og fær fylgd starfsfólks sérdeildar eftir þörfum. Daglegur skólatími nemenda miðast við gildandi viðmiðunarstundaskrá og býðst nemendum á yngsta stigi að fara í almenna skóladagvist eftir að skóladegi lýkur. Nemendur sérdeildar í 5.- 10. bekk eiga kost á að fara í skipulagða frístund í Félagsmiðstöðina Arnardal / Þorpið eftir að skóla lýkur. Einnig er boðið upp á dagvistun í júní, eftir að skóla er slitið.

Stuðningur og fylgd inn í bekki kemur frá sérdeild og er skipulagður af umsjónaraðila nemandans í sérdeild í samvinnu við umsjónakennara bekkjarins og / eða aðra kennara.

Í sérdeildinni starfa deildarstjóri, kennarar, þroskaþjálfar, iðjuþjálfi og stuðningsfulltrúar. Starfsfólk sérdeildar vinnur í nánu samstarfi við kennara, námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðing, talmeinafræðing og sálfræðing skólans, sem jafnframt er faglegur ráðgjafi deildarinnar.

Í Gagnagátt sérdeildar er að finna fjölbreytt verkefni, félagshæfnisögur, sjónrænt skipulag og annað sem reynst hefur gagnlegt í námi og kennslu nemenda deildarinnar  í gegnum árin. Öllum er frjálst að nota.

> Kíkja í Gagnagátt Sérdeildar
> Horfa á kvikmynd um starf sérdeildar