Grænfáninn

Brekkubæjarskóli er Skóli á grænni grein.

Græni fáninn sem flesta daga blaktir við hún á fánastöng skólans er viðurkenning Landverndar á því að vel hefur verið staðið að umhverfismálum skólans.

Byrjað var að vinna að því að fá Grænfánann árið 2003. Árið 2005 var stofnað Umhverfisteymi við skólann og var þá settur kraftur í starfið. Sama ár fékk Brekkubæjarskóli samþykkta umsókn sína að verkefninu Skóli á grænni grein. Þegar skóli hefur fengið samþykkta umsókn sína hefst hann handa við að stíga skrefin sjö:

  1. Stofna umhverfisnefnd skólans.
  2. Meta stöðu umhverfismála í skólanum.
  3. Gera áætlun um aðgerðir og markmið til umhverfisbóta í skólanum.
  4. Sinna stöðugu eftirliti og endurmati á umhverfismálum í skólanum.
  5. Fræða nemendur um umhverfismál.
  6. Kynna stefnu sína út á við og fá aðra með.
  7. Setja skólanum formlega umhverfisstefnu.

Þegar þessi skref hafa verið stigin getur skólinn sótt um að fá Grænfánann. Skólinn getur tekið sér þann tíma sem hann vill til að ná þessum markmiðum.

Við í Brekkubæjarskóla flögguðum Grænfánanum i fyrst sinn þann 2. október 2007 og síðan aftur 2009, 2011 og 2013. Til þess að fá Grænfánann aftur eftir 2 ár þarf að halda áfram þeirri góðu vinnu sem tryggir okkur fánann og bæta nýjum atriðum inn á verkefnalistann.

Í kjölfar þessa verkefnis hefur margt breyst til batnaðar í skólanum. Sem dæmi um það hefur dregið verulega úr orkunotkun, endurnýting á pappír stóraukist hjá bæði nemendum og kennurum. Allt rusl í skólanum er flokkað og sett í þar til gerða flokkunargáma. Notkun á pappírsþurrkum hefur dregist verulega saman og umhverfisvæn hreinsiefni eru notuð við þrif ef þess er kostur. Ýmis skemmtileg verkefni hafa verið unnin þar sem endurnýting er höfð að leiðarljósi, t.d. pappírs- og kertagerð og listaverk unnin úr ýmsum hlutum sem annars hefði verið fleygt.

Skólar á grænni grein – Grænfáninn

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Til þess að fá að flagga Grænfánanum þarf skólinn að vinna ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál.

Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.

> Lesa nánar um Grænfánaverkefni Landverndar