Umhverfisstefna – framh.

UMHVERFISTEYMI OG UMHVERFISNEFND

Umhverfisteymi kallast hópurinn sem stýrir því hvaða verkefni verða fyrir valinu og hvernig þau eru unnin.

Í teyminu eru 8 starfsmenn.

Skólaárið 2012 – 2013 eru eftIrtaldir starfsmenn í umhverfisteymi skólans: Arnbjörg Stefánsdóttir, Elínbergur Sveinsson, Kristrún Sigurbjörnsdóttir, Ragnheiður Hjálmarsdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Sigríður K. Óladóttir, og Sigríður Skúladóttir.

Auk þessa er starfandi við skólann umhverfisnefnd en í henni sitja starfsmenn umhverfisteymis, 20 nemendur úr 6. – 10. bekk, svokallaðir eftirlitsnemendur, fullrúar starfsfólks þær Bryndís Sigurjónsdóttir og Kristín Halldórsdóttir og fulltrúar foreldra þær Bryndhildur Björnsdóttir og Sigríður Valdimarsdóttir.

EFTIRLITSNEMENDUR

Eftirlitsnemendur eru úr 6. – 10. bekk. Valdir eru tveir fulltrúar úr hverjum bekk. Þessir nemendur eru jafnframt í umhverfisnefnd skólans.

Hlutverk eftirlitsnemenda er að sinna eftirliti í skólanum hálfsmánaðarlega og merkja inn á þar til gerð eyðublöð. Þeir athuga ljós (rafmagnsnotkun), krana (vatnsnotkun), flokkun pappírs og hvort endurnýtanlegur pappír sé í prenturum. Hlutverk eftirlitsnemenda er einnig að kynna umhverfismál fyrir samnemendum sínum. Nemendum er umbunað fyrir vel unnin störf í lok skólaárs.

ENDURNÝTING OG ENDURVINNSLA

Í Brekkubæjarskóla endurnýtum og endurvinnum við eins og kostur er.

Matarílát eru nýtt, t.d. í hljóðfæri, þjóðbúningadúkkur, kertaluktir , blóm, veski o.fl.

Fatnaður er nýttur í fjölbreytt verkefni.

Dagblöð og tímarit eru mikið nýtt í ýmis verkefni.

Umbúðir undan morgunkorni, eggjabakkar, sultukrukkur o.fl. er nýtt á ýmsan hátt.

Markvisst eru settar fram leiðir til að draga úr pappírsnotkun:

 • Starfsfólk er hvatt til að nýta pappír vel og ljósrita og prenta báðum megin á blöð.
 • Blöð sem búið er að prenta á aðra hliðina eru nýtt í ýmis verkefni og í prentara.
 • Pappír er flokkaður í öllum stofum í endurnýtanlegan pappír, litaðan pappír og fullnýttan pappír sem fer þá í pappírsgámana á neðstu hæð skólans.
 • Nýtanlegar afklippur af pappír og kartoni eru nýttar í ýmis konar verkefni.
 • Dagblöð eru nýtt ásamt auglýsingabæklingum í ýmiskonar verkefnavinnu.
 • Gömul landakort frá Landmælingum eru notuð til að búa til skálar o.fl.
 • Pappír úr pappírstætara er notaður til uppfyllingar í ýmis verkefni í staðinn fyrir tróð.
 • Nemendur læra að búa til pappír.
 • Eitt bekkjarsett af pappírsgerðarrömmum er staðsett í smíðastofu.

SKIPULAG FLOKKUNAR Í BREKKUBÆJARSKÓLA

Flokkun í kennslustofum
Pappír er flokkaður í:

 • Endurnýtanlegur pappír, sem búið er að prenta á öðru megin. Notaður sem teiknipappír eða til útprentunar
 • Fullnýttur pappír notaður í pappírsgerð og föndur
 • Litaður pappír

Önnur flokkun í kennslustofum

 • Nestisafgangar brytjaðir og settir í moltukassa hjá nemendum í 1.,3.,5. og 7. bekk.
 • Umbúðir undan mjólkurvörum t.d. Jógúrt- og skyrdósir skolaðar og þurrkaðar
 • Ef nemendur koma með safafernur eða flöskur þá fara þau með það heim að loknum skóladegi.

Flokkun á vinnuveri

 • Endurnýtanlegur pappír, sem búið er að prenta á öðru megin. Notaður sem teiknipappír eða til útprentunar
 • Fullnýttur pappír notaður í pappírsgerð og föndur
 • Litaður pappír
 • Pappírsrenningar sem fást þegar pappírsskerinn er notaður (notaðir í t.d. minnismiða)

Flokkun á skrifstofu

 • Kassi fyrir kertastubba
 • Box fyrir rafhlöður
 • Trúnaðarskjöl og fleira sett í pappírstætara. Notað meðal annars sem tróð í textílmennt
 • Ónýttur pappír flokkaður

Flokkun á kaffistofu starfsmanna
Þar er flokkað í:

 • Plast
 • Pappír
 • Plastílát sem eru skoluð og þurrkuð

Flokkunargámar
Starfsfólk og nemendur fara með flokkað sorp í gámana og er sú flokkun eftirfarandi:

Gámur 1 – staðsettur á 1. hæð
Fullnýttur pappír
Skrifstofupappír, bæklingar, dagblöð, tímarit, umslög og ruslpóstur

Gámur 2 – staðsettur á 1. hæð
– Mjólkurfernur og safafernur
– Jógúrt- og skyrdósir
– Aðrar plastumbúðir
– Málmar
Allt sett í glæra plastpoka

Gámur 3 – staðsettur úti
– Bylgjupappagámur

Gámur 4 – staðsettur úti
– Almennt sorp

FRAMTÍÐARSÝN UMHVERFISTEYMIS

 • Halda því sem áunnist hefur í umhverfismálum síðustu ár.
 • Allt sem snýr að skólanum falli undir umhverfisstefnu skólans.
 • Nemendur drekki vatn eða mjólk í skólanum.
 • Nemendur og starfsfólk fari heim með nestisumbúðir.
 • Allir komi með fjölnota umbúðir fyrir nesti.
 • Fegra skólalóðina.
 • Tengja saman umhverfismennt og heilsueflingu, að við verðum heilsueflandi grunnskóli.

KERTAGERÐ

Kertagerð er orðin fastur liður í Brekkubæjarskóla. Kertagerðin tengist oft þemadögum auk þess sem einstaka kennarar láta nemendur búa til kerti. Nemendur og starfsfólk skólans koma með afgangskerti í skólann sem nýtast við kertagerðina.

Leiðbeiningar um kertagerð af einföldustu gerð

1. Takið mót og gerið gat á botninnmeð grófri nál. Stingið kveiknum í gegn um gatið og lokið síðan vel fyrir með kennaratyggjói. Festið mjótt prik (grillpinna) með kennaratyggjói þvert yfir miðja dósina. Strekkið vel á kveiknum með því að setja hann yfri prikið og festa síðan efst á dósina. Mótin sem við notum eru skyr- eða jógúrtdósir.

2. Takð kerti í mismunandi litum og skerið í bita, passið að þeir séu ekki of litlir. Setjið bitana í dósina þar til hún er næstum full.

3. Fyllið mótið með bráðnu vaxi og látið storkna. Oft þarf að hella aftur yfir til að fylla í holur þar sem vaxið rýrnar þegar það storknar.

4. Þegar vaxið er storknað þá þarf að taka kennaratyggjóið og losa síðan kertið úr dósinni. Oft er botninn ósléttur þá þarf að slétta hann með því að setja kertið á heitan tóman pott. Einnig er hægt að gera það með straujárni.

SVONA BÚUM VIÐ TIL MOLD

Leiðbeiningar fyrir moltukassann

Hvað má fara í kassann:
Grænmeti, ávextir, brauðmeti, kökur, kex.

Hvað má ekki fara í kassann:
Fljótandi matarleifar, pappír, kjöt, fiskur.

Hvernig á að umgangast kassann:
Bitarnir þurfa að vera smærri en 5 cm.

Æskilegt er að bekkurinn safni saman matarleifum nestistímans saman og setji þær allar í einu í kassann. Gott er að setja daglega matarleifar í kassann.

Þegar búið er að setja matarleifar í kassann þarf að setja 1 msk af jarðgerðarhvata ofan á og hræra vel. Hrærið aðeins í efsta laginu en ekki í moldinni undir.

Ef hitinn í kassanum fer yfir 55 gráður og eða ef kemur vond lykt, þá þarf að bæta við mó eða sagi í kassann og hræra vel.

Hellið vatni af kassanum eftir þörfum.

Athugið að áður en kassinn er opnaður þarf að banka létt ofan á lokið, til að hrista vatnið undan lokinu, gætið þess að vatnið renni undan lokinu í kassann en ekki á gólfið. Oft kemur gufa upp úr kassanum þegar hann er opnaður og það er eðlilegt.

Safnkassinn tæmdur
Það þarf að tæma safnkassann mánaðarlega þó að hann sé ekki orðinn fullur!

 • Fjarlægið hálfrotnaðar matarleifar sem að eru efst í kassanum
 • Fjarlægið hitamælinn, takið pokann úr kassanum og tæmið á fyrirfram ákveðinn
 • Hreinsið safnkassann, pokann og botnþróna (skolið ef þarf).
 • Síurnar í botninum er hægt að losa og botnþróin er fest með skrúfu.

PAPPÍRSGERÐ

Það sem þarf til pappírsgerðar er:

1. Tveir trérammar (annar með neti).
2. Bali sem þarf að vera nokkuð stærri en ramminn.
3. Tuskur til að leggja blautar pappírsarkir á.
4. Rafmagnakvörn (“mixari”)
5. Svampur.
6. Snúra og klemmur.

Vinnuferlið
Pappír er rifinn í litla búta eða notaður pappír úr pappírstætara og hann lagður í bleyti, helst yfir nótt. Þegar byrjað er á pappírsgerðinni er handfylli af blauta pappírnum settur í rafmagnskvörnina og vatni bætt út í. Pappírinn er tættur þar til hann lítur út eins og þunnur grautur. Bali hafður rúmlega hálffullur af vatni. Pappírsmassi er settur út í vatnið í balanum. Hrista balann svo að kvoðan dreifist jafnt. Magn pappírs ræður þykktinni. (Þunnar pappírsarkir = mikið vatn og lítið af “grautnum”. Þykkar arkir = mikið af graut í vatnið). Setjið grindina ofan í balann. Lyftið henni síðan lóðrétt upp þannig að kvoðan myndi lag ofan á henni. Áður en þið lyftið henni alveg upp úr vatninu skuluð þið reyna að sjá til þess að kvoðan dreifist jafnt yfir grindina. Vatnið látið renna úr mótinu eins mikið og hægt er og síðan þurrkað yfir netið með svampi. Hvolfið grindinni yfir léreft og þrýstið létt yfir með svampi svo hann drekki í sig allt vatn. Lyftið grindinni varlega upp svo pappírinn liggi eftir ofan á léreftinu.

Nú má setja annan léreftsbút ofan á pappírinn og handklæði eða dagblaðapappír bæði yfir og undir. Einnig má setja farg ofan á yfir nótt til að pressa pappírinn. Setjið pappírinn á þurran stað svo hann þorni vel. Einnig má hengja léreftið með pappírnum á á snúrur og láta þorna.

Hægt er að lita pappír með matarlitum eða fatalitum. Einnig er hægt að nota efni eins og hýði utan af lauk til að lita með.

Ef maður vill gera mynstur í pappírinn er tilvalið að setja t.d. lauf, fræ eða krydd út í kvoðuna. Þá er hægt að búa til upphleypta stafi, t.d. fangamark, með því að þrýsta vír sem maður er búinn að móta stafina úr í pappírinn meðan hann er blautur.

MOLTUGERÐ

Moltukassi fer í fjóra bekki á ári; 1. bekk, 3.bekk, 5.bekk og 7.bekk. Þá flokka þessir bekkir allan lífrænan nestisúrgang, brytja hann niður og setja í kassann. Þegar moltan er tilbúin fara nemendur með hana út og dreifa henni í trjábeðin.

> Sjá leiðbeiningar um moltugerð hér í vefnum

UMHVERFISDAGAR

Umhverfisdagar í Brekkubæjarskóla eru tvisvar á skólaárinu. Starfsfólk velur sér einn dag á þessu tímabili eða á þessum dögum til útikennslu.

Við stefnum gjarnan að því að hafa útikennslu nálægt Degi umhverfisins á Íslandi sem er 25. apríl. Sú ákvörðun var tekin í ríkisstjórn Íslands árið 1999 að tileinka einn dag umhverfinu og varð 25. apríl fyrir valinu en þann dag fæddist Sveinn Pálsson norður í Skagafirði árið 1762. Hann stundaði nám í náttúrufræðum og læknisfræði við Kaupmannahafnarháskóla og lauk prófi í náttúrufræðum 1791 fyrstur Íslendinga.

Við hvetjum alla nemendur til að ganga eða hjóla í skólann alla þá daga sem umhverfisdagar eru.

UMHVERFISSPURNING VIKUNNAR

Umhverfisteymi Brekkubæjarskóla efnir til spurningakeppni síðustu vikuna í hverjum mánuði á vorönn 2014. Verður þá sett fram spurning sem nemendur og fleiri hafa viku til að ræða og svara.

Nemendur geta svarað fyrir hönd bekkjar og fengið að launum verðlaun og viðurkenningarskjal. Verðlaunin verða eins og sólarstundirnar nema við köllum þau umhverfisstund. Svarkassinn verður staðsettur á skrifstofunni.

Spurning hverrar viku er ætlað að vekja nemendur, starfsfólk og vonandi foreldra líka til frekari vitundar um umhverfismál og hvetja til meiri umræðna um umhverfismál í skólanum og utan hans.
Spurningin verður einnig sett á netið til þess að hvetja foreldra til að taka þátt með því að ræða við börnin sín um umhverfismál og hjálpa þeim að svara spurningunum. Fyrsta spurningin fór upp 27. janúar og síðasti skiladagur er föstudagurinn 31. janúar.

Umhverfisspurning #4 vikuna 5. – 9. maí:
Hvaða dag og hvaða ár flögguðum við í Brekkubæjarskóla Grænfánanum í fyrsta sinn?

Umhverfisspurning #3 vikuna 31. mars – 4. apríl:
Hverjir eru fjórir flokkar heimilisúrgangs sem mega fara í endurvinnslutunnuna (þessa grænu)?
SVAR: Það sem má fara í flokkunartunnuna er: Dagblöð og tímarit, pappír, pappi, málmar, fernur og plastumbúðir (einungis þurfti að nefna fjóra af þessum þáttum).
Vinningshafi: Sigmundur Orfeus L. Sævarsson í 2. BS

Umhverfisspurning #2 vikuna 24. – 28. febrúar:
Hvaða heimilistæki notar mesta orku af tækjum heimilisins?
SVAR: Ísskápur
Vinningshafi: Vigdís Helga í 4. BS

Umhverfisspurning #1 vikuna 27. – 31. janúar:
Hvað kallast moldin sem verður til þegar við jarðgerum garðúrgang og matarleifar?
SVAR: Molta
Vinningshafi: Patrekur í 6. BS