Haustið 2001 var tekin upp skólastefna Brekkubæjarskóla í lífsleikni og ber hún yfirheitið “Góður og fróður”. Skólastefnan er skýr framtíðarsýn í anda lífsleikni, manngildis og hugmynda um að til þess að ná árangri í skólastarfi þurfi að hlúa að vellíðan og starfsánægju bæði nemenda og starfsmanna skólans. Það eru forsendur fyrir góðum árangri í námi og starfi.
Kennslustundir í lífsleikni
Í hverjum árgangi er að jafnaði ein kennslustund á viku í lífsleikni þar sem leitast er við að uppfylla markmið aðalnámskrár. Einnig eru unnar lífsleikniáætlanir í öllum námsgreinum.
Dygð annarinnar
Markviss vinna með dygðir þvert á allar námsgreinar er hluti af skólastefnunni. Að hausti gefur lífsleikniteymi skólans tóninn og ákveður dygð/dygðirsem allir árgangar vinna með. Á þessari önn er sem unnið með ábyrgð. Í byrjun skólaárs er þemadagur sem er upphaf að vinnu með dygðina. Þá er öll kennsla brotin upp og unnin fjölbreytt verkefni í tengslum við hana. Eftir áramót eru fjölgreindaleikar þar sem nemendur spreyta sig á fjölbreyttum verkefnum sem reyna á hverja greind fyrir sig.
Morgunstundir
Fjórum sinnum á skólaárinu höldum við hátíðir tengdar dygð annarinnar í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Þessar hátíðir köllum við Stórar morgunstundir. Þar er lögð áhersla á söng og atriði frá nemendum og veittar eru viðurkenningar. Á morgunstundunum eru nemendur líka í aðalhlutverkum sem tæknimenn, ljósameistarar, kynnar og fleira.
Foreldrasamstarf
Samstarf heimilis og skóla er ríkur þáttur í skólastarfinu. Til að efla þetta samstarf er foreldrum m.a. boðið á ýmsa viðburði tengda lífsleiknistefnu skólans. Má þar nefna stóru morgunstundirnar þar sem áhorfendapallarnir eru þéttsetnir og svokallaðar dygðastundir sem haldnar eru í hverjum árgangi og/eða bekkjardeild. Dygðastundir eru undirbúnar af nemendum og umsjónarkennurum en einnig eru þær oft skipulagðar í samstarfi við foreldrafulltrúa bekkjanna. Yfirleitt er ein dygðastund á önn, þar sem dygðir skólaársins eru þema stundarinnar.
Sólarkerfið
Á vorönn 2008 var tekið í notkun Sólarkerfið svokallaða en það er umbunarkerfi sem hefur það að markmiði að bæta líðan nemenda í skólanum. Við teljum að hægt sé að draga úr eða koma í veg fyrir óæskilega hegðun með því að umbuna fyrir jákvæða hegðun. Það gerum við m.a. með því að hvetja nemendur til að iðka þær dygðir sem skólinn leggur áherslu á með lífsleiknistefnu sinni.