Um skólann

 

Brekkubæjarskóli er annar tveggja heildstæðra grunnskóla á Akranesi. Nemendur skólans eru um 470 talsins, en starfsmenn um 100.  Að auki státar skólinn af  þéttriðnu neti stoðþjónustu. Skólastjóri Brekkubæjarskóla er Arnbjörg Stefánsdóttir.

Brekkubæjarskóli starfar í húsi sem byggt hefur verið í fjórum áföngum. Kjarni hússins er frá árinu 1950 og hefur upphaflega húsinu verið breytt mjög mikið frá þeim tíma. Skólinn hefur aðgang að íþróttahúsinu við Vesturgötu til íþróttakennslu og sund er kennt í Bjarnalaug sem er innilaug. Frístund Brekkubæjarskóla er til húsa í hluta íþróttahússins við Vesturgötu. 

Brekkubæjarskóli hét lengst af Barnaskólinn á Akranesi. Í nokkur ár hét hann Grunnskólinn á Akranesi en þegar grunnskólar staðarins urðu tveir árið 1982 var Brekkubæjarskólanafnið tekið upp. Skólinn stendur á gömlu túni Brekkubæjar og þaðan er nafngiftin komin.

Barnaskólinn tók til starfa haustið 1880 í nýju skólahúsi við götu sem dró nafn sitt af því, þ.e. Skólabraut. Skólinn flutti í stærra hús við sömu götu 1912 og þar var hann til 19. nóvember 1950 að hann fluttist í núverandi húsnæði sem síðan hefur verið byggt við þrisvar sinnum. Næstu árin eftir að Fjölbrautaskólinn á Akranesi var stofnaður og Gagnfræðaskólinn á Akranesi lagður niður (1977) bættust þrír árgangar við í Brekkubæjarskóla og hefur hann síðan þá verið heildstæður grunnskóli með tíu árganga, þ.e. 1. til 10. bekk.