Þetta skólaárið höfum við í Brekkubæjarskóla unnið að verkefninu Bókmenntir og STEAM, í samvinnu við Selásskóla í Reykjavík, þar sem við lesum bækur og vinnum svo verkefni út frá textanum. Vinnan er fjölbreytt og reynir m.a. á listsköpun og svokallaða STEM hæfni, þ.e. vísindi, tækni, hönnun og stærðfræði. Þegar hafa verið unnin mjög skemmtileg verkefni í 1.-3. BS út frá Grísunum þremur, Hans og Grétu og Pönnukökutertunni. Í dag fengu börnin í 2. BS boð á skólasafnið þar sem lesið var upp úr bókinni Paddington og tvö hönnunarverkefni unnin í kjölfarið. Verkefnin voru tengd lestum enda fékk Paddington einmitt sama nafn og Paddington-lestarstöðin í London. Annað verkefnið sem börnin unnu fólst í því að leggja lestarteina og hækka þá eins mikið og þau gátu á einum stað þannig að lestin myndi renna niður brekkuna án þess að fara út af sporinu. Bekknum var skipt í 5-6 barna hópa og fékk hver hópur duplo kubba, leikfangalest og lestarteina til verksins. Þau máttu útfæra hönnunina eftir eigin höfði en voru hvött til samvinnu bæði áður en verkefnið hófst og á meðan það var unnið. Í hinu verkefninu bjó hópurinn til lestarteina úr kartonpappír og tvö mismunandi líkön af lestarhjólum. Þau athuguðu síðan hvort hjólið rann betur eftir teinunum. Bæði verkefnin reyndu á samvinnu, útsjónarsemi og hönnunarhugsun. Það var gaman að sjá börnin takast á við þessar áskoranir og leysa málin í sameiningu.
Vesturgötu 120 | 300 Akranes Sími á skrifstofu: 433 1300 Netfang: skrifstofa@brak.is |
Opnunartími skrifstofu: Föstudaga 07:45 - 12:00 |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda berist í gegnum Mentor eða síma 433 1300 / skrifstofa@brak.is.