Verkefnið Þátttaka er samvinna er samstarfsverkefni Brekkubæjarskóla, Frístundamiðstöðvarinnar Þorpsins og Háskóla Íslands og er styrkt af Sprotasjóði. Verkefnið er hluti af doktorsrannsókn Ruthar Jörgensdóttur Rauterberg, doktorsnema við Menntavísindasvið HÍ.
Markmið verkefnisins eru efla börn til þátttöku í eigin lífi, búa til farveg fyrir raddir þeirra og stuðla í leiðinni að nemendalýðræði og aukinni þátttöku barna í þróun skóla – og frístundastarfs. Allir árgangar í Brekkubæjarskóla taka þátt í verkefninu. Verkefnin í hverjum árgangi eru mjög ólík en eiga þann sameiginlega tilgang að skapa börnum tækifæri til að koma skoðunum og hugmyndum á framfæri, koma hugmyndum sínum í framkvæmd og stuðla þar með að því að skóla- og frístundastarf verði betri fyrir öll börn.
Verkefnið byggir á hugmyndum um inngildingu, þátttöku og lýðræði, en þessi lykilhugtök eru nátengd.
Inngilding þýðir að margbreytileiki er viðurkenndur, að rými sé fyrir fjölbreytileika mannlífsins, að allir hæfileikar séu metnir að verðleikum, að öll börn tilheyra hópnum. Inngilding byggir á réttlæti og samvinnu allra. Inngilding er samvinnuferli (sjá orðið „inngilding“ í iðorðasafni).
Þátttaka þýðir að taka virkan og fullan þátt og að eiga hlutdeild. Hér er um að ræða félagslega og lýðræðislega þátttöku. Þátttaka er mannréttindi og þátttaka er valdeflandi. Þátttaka er leið til að þróa hæfileika og öðlast færni, t.d. í að hafa áhrif á eigið líf og umhverfið sitt.
Lýðræði er leið til að raungera inngildingu og þátttöku. Ef öll börn geta haft áhrif á skólastarf þá er líklegt að starfið verði betra fyrir öll börn. Börn geta borið kennsl á hindranir og tækifæri fyrir inngildingu og þátttöku og geta tekið þátt í að finna leiðir. Lýðræði byggir því á þátttöku og samvinnu.
Doktorsrannsókn Ruthar, sem er þátttöku-starfendarannsókn, heldur utan um verkefnið og samvinnuna og hefur þann tilgang að skapa þekkingu sem nýtist í þróun inngildandi og lýðræðislegs skóla- og frístundastarfs. Markmið rannsóknar er þróa vinnuramma og samvinnuleiðir sem tryggja áhrif barna á skólaþróun. Leiðbeinendur Ruthar í doktorsverkefninu eru Hafdís Guðjónsdóttir og Karen Rut Gísladóttir, prófessorar við Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Andreas Hinz, prófessor frá Háskólanum í Halle, Þýskalandi. Andreas hefur heimsótt Brekkubæjarskóla tvisvar og verið ráðgjafi við verkefnið Þátttaka er samvinna.
Vesturgötu 120 | 300 Akranes Sími á skrifstofu: 433 1300 Netfang: skrifstofa@brak.is |
Opnunartími skrifstofu: Föstudaga 07:45 - 12:00 |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda berist í gegnum Mentor eða síma 433 1300 / skrifstofa@brak.is.