Rithöfundar í heimsókn

Síðasta vika varð óvart hálfgerð bókmenntavika hjá okkur í Brekkubæjarskóla því við fengum þrjá flotta rithöfunda í heimsókn til okkar.
Bjarni Fritzson reið á vaðið og tryllti lýðinn (eða sko yngsta- og miðstig) með nýjustu bókunum sínum. Eins og staðan er núna er þriggja kílómetra langur biðlisti eftir nýjustu Orra óstöðvandi bókinni, Heimsfrægur á Íslandi. Svo eru bækurnar hans fyrir yngri lesendur í sífelldu útláni.
Næst kom Embla Bachmann og kynnti nýjustu bókina sína, Kærókeppnin, fyrir miðstigi og unglingastigi. Embla steig fram á sjónarsviðið í fyrra, aðeins 17 ára, með sína fyrstu bók. Sú bók, Stelpur stranglega bannaðar, seldist mjög vel og hlaut m.a. tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Embla endurtók leikinn í ár því Kærókeppnin er einnig tilnefnd til sömu verðlauna. Um leið og Embla lauk sinni kynningu voru allar bækurnar hennar horfnar af safninu og biðlistinn eftir nýju bókinni er sífellt að lengjast.
Að lokum kom Þorgrímur Þráinsson og ræddi við miðstigið um bókaskrif og bækurnar sínar. Hann hefur skrifað ógrynni bóka en tók nokkrar þeirra sérstaklega fyrir og fór í það hvernig sögurnar urðu til og hvernig hann fléttaði draugasögur, þjóðsögur og sögur úr eigin lífi inn í bækurnar. Krakkarnir hlustuðu af athygli og hafa sérstaklega sýnt bókinni "Margt býr í myrkrinu" áhuga.
Það er ómetanlegt að fá rithöfunda í heimsókn í grunnskólana. Þeir hafa einstakt lag á að kveikja lestraráhuga og spenning fyrir bókunum. Sumir leggja sig meira að segja fram við að kveikja áhuga meðal nemenda á því að skrifa sjálfir. Við í Brekkubæjarskóla þökkum þessu flotta fólki kærlega fyrir komuna 🥰