Skókassaverkefni í 6.bekk

Í janúar ár hvert er svokölluð Bókamessa í Brekkubæjarskóla. 6. bekkur tók nýjan vinkil á bókakynningarnar þetta árið og útbjó það sem við köllum bók í skókassa. Hver og einn nemandi valdi sér bók til að lesa en það mátti vera skáldsaga, ævisaga, fræðibók eða bara hvað sem þau kusu sjálf. Hver nemandi hafði svo einn skókassa til að útbúa kynningu á bókinni. Þar átti að koma fram höfundur bókar, söguþráður, persónur og sögusvið svo eitthvað sé nefnt. Svo skreyttu þau kassann og settu hann upp að vild.
Krakkarnir buðu öðrum nemendum og starfsfólki að koma og kynna sér bækurnar og mjög margir nýttu sér það kostaboð. Vonandi hefur kviknað áhugi hjá gestunum að lesa þær bækur sem þarna voru kynntar.
Útfærslurnar voru gríðarlega fjölbreyttar og skemmtilegar.