Þessa dagana eru heilmiklar framkvæmdir í gangi í Brekkubæjarskóla og gengur sú vinna vel. Hreinsun og viðgerðir á fyrstu hæð skólans eru á réttri leið, búið er að mála og rykbinda loftin og plöturnar í kerfisloftinu verða settar í á næstu dögum. Þá er einnig verið að gera við þakið yfir salnum en dúkurinn þar var farinn að leka. Þegar farið var að hrófla við dúknum varð mikill leki á svæðinu fyrir framan salinn og uppi á sviðinu. Ekki hefur verið hægt að fara með nemendur inn í salinn vegna þessa. Um leið og salurinn og svæðið þar fyrir framan er komið í nothæft horf og nemendur geta gengið þar um verður mötuneytið opnað að nýju. Jafnframt mun brauðsalan sem tíundi bekkur rekur og setustofa unglinga opna á sama tíma.
Á annarri og þriðju hæð skólans fer framkvæmdum senn að ljúka. Þar er verið að skipta um allar plötur í kerfisloftum og setja nýja lýsingu í stofur og á ganga. Allt svæðið var málað og nýjar gardínur settar upp. Öll salerni og ræstiherbergi voru tekin í gegn, skipt um klæðningar á veggjum og ný hreinlætistæki sett alls staðar.
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 10. febrúar síðastliðinn að haldið verði áfram vinnu vegna mögulegra breytinga á fyrstu hæð skólans.
Vesturgötu 120 | 300 Akranes Sími á skrifstofu: 433 1300 Netfang: skrifstofa@brak.is |
Opnunartími skrifstofu: Föstudaga 07:45 - 12:00 |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda berist í gegnum Mentor eða síma 433 1300 / skrifstofa@brak.is.