Á bókasafninu okkar er búið að hengja upp aragrúa af Origami trönum. Trönurnar voru flestar gerðar í listgreinatímum af nemendum 7. bekkjar og einhverjar af nemendum úr 8. og 9. bekk. Þetta listaverk er hluti af verkefninu ,,Að brjóta 1000 trönur" sem þær Borghildur Jósúadóttir og Bryndís Siemsen standa fyrir og er styrkt af Menningarsjóði Akraneskaupstaðar.
„Að brjóta 1000 trönur“ hefur breiðst út um allan heim og byggir á sögunni um litlu stúlkuna Sadako Sasaki sem var tveggja ára þegar sprengjan féll á Hiroshima (1945). Vegna geislavirkni frá sprengjunni greindist hún 10 árum seinna með hvítblæði eins og mörg önnur börn. Vinkona hennar færði henni Origami trönu á sjúkrahúsið, táknræna gjöf. Sadako fór þá að brjóta trönur og náði að brjóta sexhundruð fjörutíu og fjórar trönur fyrir dauða sinn. Vinir hennar brutu þær trönur sem vantaði upp á þúsund. Í framhaldi af því hófu þeir söfnun fyrir minnismerki. Fimmta maí árið 1958 var minnismerkið (The Children´s Peace Monument) vígt í friðargarðinum við Hiroshima (Hiroshima Peace Memorial Park).
Origami er aldagamalt japanskt pappírsbrot og sérstaklega vinstælt er að brjóta trönur, en þær eru heilagir og táknrænir fuglar í Japan og segir þjóðtrúin að með því að brjóta 1000 trönur á einu ári verði ósk manns uppfyllt.
Tranan er orðin friðartákn um allan heim .
Við ætlum saman að brjóta 1000 trönur fyrir friði í heiminum. Nemendur Brekkubæjarskóla, Fjölbrautaskólans og Grundaskóla taka þátt í verkefninu. Eins er hittingur á Bókasafninu á fimmtudögum frá klukkan 15 – 17.
Hér má lesa meira um verkefnið.
Vesturgötu 120 | 300 Akranes Sími á skrifstofu: 433 1300 Netfang: skrifstofa@brak.is |
Opnunartími skrifstofu: Föstudaga 07:45 - 12:00 |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda berist í gegnum Mentor eða síma 433 1300 / skrifstofa@brak.is.